Tilmæli Umhverfisstofnunar um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum
20.10.2016
Tilmæli Umhverfisstofnunar um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum
Kurl unnið úr hjólbörðum inniheldur hættuleg efni. Æskilegt er að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þó að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls valdi heilsufarslegum skaða beinir Umhverfisstofnun því til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum, að við endurnýjun vallanna eða við byggingu nýrra valla verði notaðar aðrar lausnir. Ef fylliefni eru notuð ætti að leitast við að velja slík efni með sem hafa lægstan styrk skaðlegra efna.
Mælingar sýna að dekkjakurl getur innihaldið PAH, þrávirk efni sem geta valdið krabbameini, í umtalsvert meira magni en t.a.m. kurl úr iðnaðargúmmíi. Að auki liggja fyrir upplýsingar um töluverðan breytileika á styrk PAH í iðnaðargúmmíi. Í ljósi þessara upplýsinga hvetur Umhverfisstofnun kaupendur fylliefna fyrir gervigrasvelli til að gera kröfu um innihaldslýsingar frá framleiðendum og leggja þær til grundvallar við val á efni.
Til að lágmarka snertingu við kurlið má til dæmis huga að viðeigandi klæðnaði. Ekki ætti að neyta matar á eða við vellina. Fólk sem á erfitt með öndun eða þjáist af astma ætti að vera meðvitað um að gæði lofts í íþróttahúsum með gervigrasvöllum geta verið lítil. Verði ofnæmisáhrifa vart af snertingu við gúmmíkurl ætti að forðast hana eftir fremsta megni.
Áhyggjur af notkun kurls á gervigrasvöllum og sparkvöllum eru ekki eingöngu heilsufarslegs eðlis. Komið hafa fram áhyggjur vegna umhverfisáhrifa sem kurlið gæti haft. Við niðurbrot gúmmís getur m.a. myndast örplast og afrennsli frá völlunum getur borist í jarðveg í kringum vellina. Eðlilegt er að takmarka umhverfisáhrif vallana eftir því sem unnt er.
Greinargerð:
Umræða um gúmmíkurl og mögulega skaðsemi þess hefur verið áberandi hér á landi undanfarna mánuði. Þó að gúmmí geti verið misjafnt að gerð hafa ýmis skaðleg efni, eins og þungmálmar (blý, zink og kadmíum) og olía sem inniheldur fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH), sem eru þrávirk og geta m.a. valdið krabbameini, verið notuð við framleiðslu hjólbarða. Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem unnið er úr notuðum hjólbörðum. Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisstofnun fékk frá KSÍ voru 197 gervigrasvellir á landinu árið 2015. Um 82% þeirra voru með svart dekkjakurl en 18% annað kurl (litað eða iðnaðarkurl). Notkun dekkjakurlsins hefur valdið áhyggjum vegna efnanna sem gætu losnað út í umhverfið frá því og umræðan hefur haft þau áhrif að mörg sveitarfélög hafa sett fram áætlanir um að endurnýja gervigrasvelli með öðru efni en dekkjakurli, t.a.m. Reykjavík.[1]
Umhverfisstofnun hefur fylgst náið með umræðu um dekkjarkurl á gervigrasvöllum á Norðurlöndum, þar sem notkun þess hefur verið skoðuð með ítarlegri hætti. Yfirvöld umhverfismála á Norðurlöndum hafa, á forsendum rannsókna, tekið þá afstöðu að dekkjakurl á gervigrasvöllum sé ekki skaðlegt þeim sem nota vellina. Umhverfisstofnunin í Danmörku fullyrðir að því fylgi ekki meiri heilsufarsleg áhætta að nota gervigrasvelli með gúmmíkurli en venjulega grasvelli, en útilokar ekki að kurlið geti vakið ofnæmisviðbrögð hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir einhverjum efnum sem í því finnast.[2] Þó að rannsóknir bendi ekki til að notkun á dekkjakurli fylgi heilsufarsleg áhætta, inniheldur dekkjakurl óæskileg efni sem gætu smitast út í nálægt umhverfi. Sum þessara efna gætu skaðað lífverur í vatni, sjó og jarðvegi. Í ljósi þessa hafa nokkur Evrópuríki verið með til skoðunar hvort eðlilegt sé að leyfa þessa notkun á dekkjakurli. Í Noregi[3] og Svíþjóð[4] hafa yfirvöld gefið út tilmæli um að skipta dekkjakurlinu út við endurnýjun gervigrasvalla og leita annarra leiða á nýjum völlum.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra lét mæla svifryk í íþróttahúsinu Boganum og djúphreinsa gervigrasið þar í kjölfar kvartana um lítil loftgæði. Í stuttu máli jukust gæði lofts mikið við djúphreinsun, en magn svifryks var yfir heilsuverndarmörkum (50 μg/m3) fyrir hreinsunina, eða um 60-70 μg/m3 í lok dags. Eftir djúphreinsun lækkaði styrkurinn í 20-30 μg/m3.[5]
Í kjölfar fundar fulltrúa Umhverfisstofnunar með Sóttvarnalækni í mars 2016 óskuðu fulltrúar Umhverfisstofnunar eftir áliti Sóttvarnalæknis um heilsufarsleg áhrif dekkjakurls á íþróttavöllum hér á landi. Í svari Sóttvarnalæknis[6] kom fram að hann telji ekki forsendur vera fyrir því að fullyrða, að börnum og unglingum stafi heilsufarsleg hætta af dekkjakurli á íþróttavöllum en að skortur sé á áreiðanlegum rannsóknum á þessu sviði. Í ljósi þessarar óvissu telur Sóttvarnalæknir þá kröfu skiljanlega að dekkjakurl verði ekki notað á íþróttavöllum landsins.
Í rannsókn, sem Heilsu- og velferðastofnun Finnlands gerði árið 2015, kom fram að PAH innihald kurls úr iðnaðargúmmíi (1,5 mg/kg) væri mun minna en í dekkjakurli (38-81 mg/kg).[7] Umhverfisstofnun lét framkvæma efnagreiningu á sýnum af kurli sem tekin voru af nokkrum gervigrasvöllum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Styrkur ýmissa efna sem mæld voru í kurlinu (fenól, kresól, xýlenól, PCB og þalöt) reyndist vera undir greiningarmörkum.[8] Vegna tæknilegra örðugleika náðust ekki þau greiningarmörk sem vonast var til fyrir PAH. Því sendi Umhverfisstofnun auka sýni til mælinga á PAH hjá öðrum aðila. Þær mælingar sýndu[9] að heildarmagn PAH (16 slík efnasambönd voru mæld) er umtalsvert hærra í sýnum úr svörtu dekkjakurli (29-42 mg/kg) en í kurli úr iðnaðargúmmíi (10 mg/kg). Einnig vekur athygli að styrkur PAH í iðnaðargúmmíinu reyndist töluvert hærri en í finnsku mælingunum.
Í REACH (reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni) eru ekki sérstök ákvæði um styrk PAH eða annarra efna í dekkjakurli. Efnastofnun Evrópu (ECHA) hefur hins vegar skorið úr um það að gúmmíkurl úr dekkjum teljist efnablanda, en ekki hlutur. Af því leiðir að í kurlinu er leyfilegur styrkur hvers efnis, sem flokka má sem krabbameinsvaldandi PAH, 0,1% eða 1000 mg/kg.[10] Sum efnasambönd eru sérstaklega tiltekin og hafa þrengri mörk. Þannig má kurlið mest innihalda 100 mg/kg af benzo(a)pyrene, sem tilheyrir hópi PAH-efna. Eins og sjá má að framan sýna mælingar að styrkur PAH í kurlinu er vel innan þeirra marka sem sett eru í reglugerðinni. ECHA er nú með til sérstakrar skoðunar hvort heilsufarsleg áhætta geti stafað af notkun dekkjakurls sem fylliefnis í gervigrasi.[11] Efnastofnun Evrópu mælir ekki gegn notkun íþróttavalla með dekkjakurli á forsendum núverandi þekkingar.
Sumarið 2016 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum, þar sem Alþingi felur umhverfis- og auðlindaráðherra, í samstarfi við Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga að móta áætlun sem miði að því að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er nú að finna. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.[12]