Lagagrunnur

Lagagrunnur heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga

Lagagrunn heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga (HES) er að finna í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (nr. 7/1998 með breytingum), lögum um matvæli (nr. 93/1995 með breytingum) og lögum um tóbaksvarnir (nr. 6/2002 með breytingum).

Einnig hafa komið til lög um stjórn vatnamála, lög um umhverfisábyrgð og fyrirhugaðar eru breytingar á lögum um efni og efnavörur. Lagabreytingar hafa komið til sem hveða á um ríkari frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að upplýsa um mál sem varða samfélagslega hagsmuni. Þá er í umræðu lögleiðing stjórnvaldssekta.

Megin markmið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Sveitarstjórnir, byggingarnefndir og önnur yfirvöld sveitarfélaganna, sem og ríkisstofnanir, skulu leita álits heilbrigðisnefndar um hvers konar ráðstafanir vegna framkvæmda sem lögin um hollustuhætti og mengunarvarnir taka til. Þetta felur t.d. í sér að bygginganefnd skal hafa undir höndum umsögn heilbrigðiseftirlits áður en hún samþykkir teikningar af fyrirtækjum sem þurfa starfsleyfi heilbrigðiseftirlits.

Fjölmargar reglugerðir, skilyrði og leiðbeiningar eru gefnar út með stoð í fyrrnefndum lögum. Starf heilbrigðisfulltrúa skarast gjarnan við starf annara embætta, s.s. skipulags- og byggingafulltrúa, eldvarnaeftirlits, Vinnueftirlits ríkisins og Matvælastofnunar.

Umhverfisstofnun og Matvælastofnun samræma og hafa yfirumsjón með störfum helbrigðisnefnda. Á heimasíðum þessara stofnana er að finna margvíslegan fróðleik og fræðsluefni og einnig er þar greiður aðgangur að helstu lögum og reglum; flokkað undir mismunandi forsendum.

Starfsemi heilbrigðisnefnda heyrir þannig undir tvö ráðuneyti; Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Matvælaráðuneytið