Raki og mygla í byggingum; málþing
Raki og mygla í byggingum – málþing um heilsu, hollustu og aðgerðir
Raki og mygla og áhrif þess á heilsufar hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Faglegar upplýsingar og almenn þekking um þessi mál hefur hingað til verið afar takmörkuð hérlendis. Þó hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, sýnt fram á að raki og mygla eru áhættuþáttur fyrir heilsu þeirra sem dvelja í rakaskemmdu húsnæði.
Tilgangur málþingsins á föstudaginn er að efla vitund um málefnið, styrkja samvinnu fagaðila og hefja aðgerðir til þess að sporna við þessu vandamáli. Málið er brýnt hvort sem litið er til lýðheilsu eða verðgildis fasteigna. Því er mikilvægt að auka upplýsingaflæði um niðurstöður rannsókna um þessi málefni og efla forvarnir í hönnun og uppbyggingu mannvirkja.
Dr. Anne Hyvarinen mun flytja fyrirlestur um hvernig skoða eigi rakaskemmt húsnæði og uppræta vandamálið og greinir frá því hvernig stofnanir og samtök í Finnlandi hafa brugðist við. Finnar eru einna fremstir í rannsóknum á þessum sviði í heiminum. Fjöldi innlendra sérfræðinga mun einnig flytja erindi á ráðstefnunni. Fundarstjórar verða Michael C. Clausen, sérfræðingur í ofnæmislækningum barna, og Jóhannes Þórðarson, arkitekt og fyrrverandi deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar LHÍ.
Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Samtök iðnaðarins, IceIAQ og fagfélög innan byggingargeirans standa að málþinginu. Það er ætlað almenningi, húseigendum, fagaðilum innan byggingargeirans og heilbrigðisstéttum. Aðgangseyrir er 5.000 kr. en 2.500 kr. fyrir nema og ellilífeyrisþega. Innifalið er kaffi og hádegismatur.
Málþingið hefst kl. 08.00 og stendur til kl. 15.30.
Skráning fer fram á vef Endurmenntunar Háskóla Íslands