Nýjar tölur fyrir Nökkvasvæðið og Sílabás
Sjósýni sem tekin voru við flotbryggjur Nökkva og sunnan við landfyllingu á Nökkvasvæðinu þann 29.júní sl. gáfu eftirafarandi niðurstöður:
Við flotbryggju mældust 49 saurkólígerlar í 100 ml af sjó og í vík sunnan við landfyllingu mældust 79 saurkólígerlar í 100 ml af sjó.
Þessar niðurstöður eru innan umhverfismarka sem gefin eru upp í reglugerð nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, þar sem miðað er við 100 saurkólígerla í 100 ml af strandsjó þar sem útivistarsvæði eru í grennd. Fyrri tilmæli HNE um að forðast busl og sjóböð í víkinni við flotbryggjur Nökkva eru þó enn í gildi þar sem grunur leikur á um rangtengingar í ofanvatnskerfi bæjarins sem opnast út í umrædda vík.
Þann 29.júní sl. var að auki tekið sjósýni úr Sílabás, sem er víkin norðan við Sandgerðisbót og mældust þar 920 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó, sem er yfir umhverfismörkum. HNE mælir af þeim sökum ekki með busli og sjósundi í Sílabás.