Miðlun upplýsinga
Miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hyggst á næstunni setja reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Með reglugerðinni verður innleidd reglugerð Evrópuþingsins- og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011. Óskað er eftir umsögnum um þau drög að innleiðingareglugerð sem liggja nú fyrir.
Í reglugerðinni er fjallað um almennar meginreglur, rétt neytenda, skyldur og ábyrgð matvælafyrirtækja er varða matvælaupplýsingar, s.s. merkingar matvæla, upplýsingar um óinnpökkuð matvæli og auglýsingar. Reglurnar varða alla matvælakeðjuna, enda verða upplýsingar að berast með matvælum alla leið frá uppruna þeirra til neytenda. Þær varða innpökkuð matvæli og óinnpökkuð, frá framleiðendum, í verslunum og netviðskiptum og þær varða upplýsingar um matvæli á veitingastöðum og mötuneytum svo dæmi séu tekin. Neytendur eiga rétt á að velja sín matvæli á upplýstan hátt. Stefnt er að því að tryggja öfluga neytendavernd í tengslum við matvælaupplýsingar.
Við gildistöku reglugerðarinnar munu m.a. falla úr gildi reglugerðir nr. 503/2005 um merkingu matvæla og nr. 410/2009 um merkingu næringargildis matvæla.
Umsagnir skulu berast atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík eða á netfangið postur@anr.is fyrir 14. mars 2014.