Fráveitumál í Skútustaðahreppi, bókun heilbrigðisnefndar
12.05.2016
Á fundi heilbrigðisnefndar þann 11. maí 2016 var eftirfarandi bókað:
Heilbrigðisnefnd ítrekar fyrri tilmæli til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að skipuleggja og hrinda í framkvæmd úrbótum í fráveitumálum til samræmis við gildandi lög og reglur og gagngert í þeim tilgangi að draga úr álagi í Mývatni af völdum næringarefna.
Að mati heilbrigðisnefndar er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Vogum og Skútustöðum og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns.
Einnig er mikilvægt að bændur eigi þétt og vönduð 6 mánaða haughús og hagi búrekstri í samræmi við starfsreglur Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti, takmarki og vandi alla notkun á áburði og skili landbúnaðarúrgangi í viðurkennda förgun og að gert verði átak í flokkun, móttöku og förgun landbúnaðarúrgangs.
Heilbrigðisnefnd mælist jafnframt til þess að ríkisstjórn veiti Skútustaðahreppi nú þegar fjárhagslegan stuðning vegna kostnaðar við hönnun, byggingu og rekstur á hreinsivirkjum fyrir skólp í Skútustaðahreppi.
Í þessu sambandi er bent á kröfu um ítarlega skólphreinsun skv. reglugerð um verndun Mývatns og Laxár (nr. 665/2012). Um er að ræða mjög kostnaðarsamar og íþyngjandi kröfur fyrir fjárhag lítils sveitarfélags og jafnframt felast miklir hagsmunir og ábyrgð í því að vernda Mývatn sem náttúruperlu á heimsvísu.
Heilbrigðisnefnd minnir á mikilvægi þess að hraða úrbótum í fráveitumálum í Skútustaðahreppi eins og kostur er, þannig að ekki þurfi að koma til þess að takmarka fjölda ferðamanna á vatnasvæði Mývatns.